miðvikudagur, 19. desember 2007

Jólahvað??

Ég skil bara ekkert í þessu jólastressi hjá fólki...
...til hvers að vera að baka fullt af smákökum þegar hægt er að kaupa tilbúnar!

Sonur minn er nýbúinn að kenna mér nýtt attitude sem hefur nýst mér rosa vel jólaundirbúningnum.
Um daginn föndruðum við skó til að setja í gluggan og hann var svo rooosalega ánægður með skóinn "sem hann bjó til!". Ehhhmmm...já, hann var að leika sér við annan "föndrandi" strák á meðan að mömmurnar bjuggu til skóna. Svo er hann líka alveg hrikalega stoltur af piparkökuhúsinu sem "hann bjó til!". Já, eða þannig....

Þetta er frábært lífsviðhorf...nú er ég alveg meiriháttar ánægð með piparkökurnar sem "ég bakaði" (keypti tilbúnar úti í búð) og alveg brjálæðislega stolt af peysunni sem ég prjónaði á dótturina (vinkona prjónaði...). Nú, svo ég tali nú ekki um hvað ég er búin að vera dugleg að þrífa húsið hátt og lágt (hmmm...skúrkan sá um það).

Jiii hvað ég er myndarleg húsmóðir!

sunnudagur, 9. desember 2007

Græn jol

Jæja, þá er jólahýsterían að fara af stað. Las einhvers staðar að meðalmanneskjan eyðir svona u.þ.b. 50.000 kr í jólagjafir. Helmingurinn er örugglega eitthvað sem enginn hefur þörf fyrir og gleymist fljótt (ég segi bara fótanuddtæki!).

Í alvöru, munið þið hvað þið fenguð í jólagjöf í fyrra? Nei, mig grunaði það nefnilega.

Hvernig væri nú að reyna að halda græn og umvherfisvænni jól! Það má t.d. búa til fallega pottaleppa með því að sjóða gamlar peysur og klippa út leppa. Eða gefa upplifun eins og leikhúsmiða, barnapössun, fótanudd (alvöru...ekkert tæki), dansnámskeið eða jógatíma. Það er líka örugglega gaman að fá ljóð eða smásögu í jólagjöf (þetta er sérstakt hint norður í land!). Já, eða bara hreinlega að Amnesty eða Rauði Krossinn fái pening í staðinn fyrir að við fáum jólagjafir.

Hér verður mikið um ekólógiskar jólagjafir. Við fjölskyldan erum ekki komin svo langt í lífsstílsbreytingunni að við séum hætt að kaupa jólagjafir (langt í það...) en þær verða sko alveg örugglega organic í ár. Það verður líka jólatré hjá okkur og við erum með jólaljós í gluggunum....en þau eru á timer þannig að það kviknar bara á þeim á morgnana og kvöldin.

Ég hef alltaf verið mikið jólabarn (í orðsins fyllstu merkingu!). Í ár ætla ég að vera grænt jólabarn en vona þó að jólin verði hvít.

föstudagur, 30. nóvember 2007

Verði ykkur að goðu!

Já, það er nú ekki á hverjum degi sem maður býður vinum sínum í mat og fær matinn birtann á frægu matarbloggi! En hér er það: http://bossesmat.blogspot.com/2007/11/den-goda-grytan.html

Þetta er mjög skemmtilegt matarblogg sem vinur okkar er með. Fullt af góðum matarhugmyndum, bæði hversdags og spari. Fjölskyldan gerir alltaf matseðil fyrir vikuna til að þurfa ekki alltaf að vera að hlaupa út í búð. Við erum ekki komin svona langt...stundum langar mann líka bara í ýsu með kartöflum þó það sé fimmtudagur og quornfars með pasta á matseðlinum!

Nú, af því að ég er að segja ykkur frá góðum matarbloggum verð ég að benda ykkur á frábæra matarbloggið hennar Beggu: http://www.beggumatur.blogspot.com/ Ég lenti í því um daginn að þurfa að elda (þetta gerist svona þrisvar á ári...) og fór þá á Beggublogg og fann frábæra og algerlega idiotproof uppskrift að lax með fetaábreiðu. Nammm!

föstudagur, 23. nóvember 2007

No shopping!

Á morgun er "ekki-versla-dagurinn". Prófið að bara njóta dagsins án þess að fara í Kringluna eða Smáralind eða Täby Centrum. Það er svo margt skemmtilegt hægt að gera á laugardögum: hitta vini sína, fara í gönguferð, fara í yoga eða leikfimi, lesa, dansa við börnin sín við abba-tónlist (yes, það er sko skemmtilegt!), sofa, klippa á sér neglurnar, spila spil, fara í leikhús...já, hugmyndaflugið er það eina sem setur mörkin.

Enjoy!

miðvikudagur, 14. nóvember 2007

Rapport frá Íslandi

Yndislegt að vera komin til Íslands til fjölskyldunnar sem tekur á móti okkur með opinn faðminn. Klukkan er níu að morgni og það er ennþá dimmt...mjög kósí að sitja bara á náttfötunum með tebolla og lesa Moggann.

Það er ýmislegt sem hefur vakið athygli mína svona fyrsta sólarhringinn á landinu:

- Það er enn jafn góð kísillykt af heita vatninu í sturtunni. Er að spá í að taka með mér vatn til þess að sniffa heima :-)

- Ég sá ÞRJÁ hummerbíla á leiðinni frá Keflavík í bæinn (það ER ekki í lagi með suma...) :-(

- Það er komin ný búð á Frakkastíg sem selur vistvænan/lífrænan fatnað og fair trade vörur :-)

- Það er búið að endurútgefa eina einkennilegustu barnabók íslenskrar tungu, bókina „tíu litlir negrastrákar" (lesið góða grein um þetta á http://www.visir.is/article/20071031/SKODANIR03/110310113). Á sama tíma er hörundsdökkur maður ráðinn í afgreiðslu í bakaríi á Hringbrautinni og velta bakarísins minnkar um leið! Sjáið þið ekki tenginguna? :-(

- Besta brauðið í heimi fæst í Brauðhúsinu í Grímsbæ og ég er að fara að labba þangað núna á eftir. Namm hvað mig er búið að dreyma um gulrótarbrauðið :-)

- Flestir bílar sem farið er með á haugana eru 7-8 ára gamlir og þurfa bara á smá viðgerð að halda en fólki finnst ekki taka því að láta gera við bílinn. Kaupa bara nýjan :-(

- Allt fyrir ástina, nýja platan hans Páls Óskars er að koma út. Páll Óskar er BARA bestur :-)

- Íslendingar keyptu leikföng fyrir 70 milljónir í Toys ´R´ Us fyrstu helgina sem þessi illræmda verslun var opin :-(

- Íslenska vatnið er gott, loftið er hreint og landið er fallegt. Reykjavík er yndisleg í nóvember :-)

Knús

sunnudagur, 11. nóvember 2007

Pabbadagur

Í dag er pabbadagur í Svíþjóð og verslunarmenn hafa auðvitað verið ötulir við að auglýsa ýmiss konar pabbagjafir. Bindi, geisladiska, skyrtur, flatskjásjónvörp (!) og annað sem pabbar VERÐA að fá í tilefni dagsins.

Á okkar heimili er svona anti-stefna í gangi. Gjafir, já takk! Bara ekki þegar aðrir (=verslunarmenn) segja manni að gefa gjafir. Pabbinn á heimilinu fékk t.d. voða fína lattefroðukönnu um daginn bara svona upp úr þurru af því að okkur langaði að gefa honum eitthvað. En í dag voru engir pakkar og pabbinn fékk að halda upp á pabbadaginn með því að vera bara PABBI. Það er að segja: fara eldsnemma á fætur með þann þriggja ára og taka svo við litlu dömunni þegar hún vaknaði og losa hana við kúkableyju.

Já, það er bara gjöf að VERA pabbi. Spáið í allar flottu gjafirnar sem pabbinn hér á heimilinu fékk t.d. bara í dag (alveg ókeypis): Blautur koss á munninn. Geislandi andlit dótturinnar þegar hún sá risagullfiskana í Haga. Stolt augnaráð sonarins þegar hann fór í fótboltapeysuna sem pabbi gaf honum (með merki liðsins hans - Djurgården - á). Lítil hendi sem heldur þéttingsfast í hönd pabba í fiðrildahúsinu skemmtilega (maður verður nú svolítið hræddur við öll fljúgandi fiðrildin). Hláturinn sem ómar hér um allt hús þegar tvö lítil börn uppgötva Gúmmíbangsana í tölvunni (http://www.kvikmynd.is/video.asp?land=&offset=&id=2608).

Til hamingju með að VERA pabbi, allir pabbar!

fimmtudagur, 8. nóvember 2007

Græna græna fjölskyldan


Ég er komin með ”klimatångest” eins og það er kallað hér í Svía ríki. Sem sé angist yfir framtíð jarðarinnar þar sem við erum í óða önn að skemma umhverfið okkar.

Ef ég væri tíu árum yngri og ekki alltaf svona þreytt á kvöldin myndi ég gerast félagi í hóp sem kallar sig INDÍÁNAR MALBIKSFRUMSKÓGARINS (Asfaltdjungelns Indianer). Þau læðast um á kvöldin og hleypa loftinu úr dekkjum á megamengandi bílum – aðallega þá bensinpúandi jeppaferlíkjum af hinum ýmsu gerðum. Hvað er fólk sem fer aldrei út fyrir malbikaða götu í Stokkhólmi að gera með jeppa? Og til hvers í ósköpunum er fólk á Íslandi að kaupa sér Hummer? Ég meina…Hummer…er ekki allt í lagi???!! (nú er mér farið að hitna í hamsi…er á leið til Íslands og aldrei að vita hvað gerist ef ég sé Hummer í myrkri!!).

En af því að ég er svo gömul og þreytt (og það er svo kalt úti á kvöldin) læt ég mér nægja (í bili…) að lifa umhverfisvænu lífi sjálf.

Við fjölskyldan erum orðin svo ægilega dugleg að flokka rusl – enda flokkun mín sérgrein! Við skolum úr öllum fernum, krukkum, plastílátum, dósum og kornflekspökkum (ok, skolum þá ekki en flokkum sem sagt…) og HJÓLUM með allt í endurvinnslu. Öll dagblöð eru sett í sérstaka tunnu sem er sótt á fjögurra vikna fresti. Matarleifar fara í kompostpoka og út í jarðgerðartunnuna sem er á fullu að búa til fínfína mold í beðin.

Síðan við byrjuðum að flokka eru nánast bara bleyjur í ruslatunnunni. Næsta skref er að prófa taubleyjur…eða kannski ég fari frekar bara út og hleypi úr nokkrum dekkjum.

sunnudagur, 4. nóvember 2007

Komment - ja takk!

Ok, ég hélt ég væri alveg ótrúlega mikil internetpæja sem kynni alla fítusa á blogginu. En einhvern veginn tókst mér að "týna" öllum kommentum hérna á síðunni. Þau lentu í sérstakri möppu og biðu eftir því að ég samþykkti þá....sem ég fattaði sem sagt ekki fyrr en núna.

Sko. Carl Bildt lenti í því að fólk var að setja alls konar ljót komment á bloggið hans og ég ætlaði sko ekki að lenda í því.

En nú er ég búin að opna fyrir kommenta. Plís, skrifið nú mikið á síðuna mína! En ekkert ljótt um Palestínu eða svoleiðis...þá verð ég kærð fyrir "hets mot folkgrupp!".

Velkomin!

Halloween

Ég hef aldrei almennilega fattað þetta Halloween-dæmi. Er þetta ekki amerísk uppfinning? Nú eru halloween-veislur á leikskólum og skólum út um allt, allir í draugabúningum og nornabúningum.

Í fyrra var fullt af beinagrindum sem hringdu á dyrabjölluna hjá okkur til að sníkja nammi….og við vorum búin að steingleyma því að það væri halloween. Buðum börnunum epli og manderínur…sem þau vildu ekki! Í ár keyptum við heila salatsskál af nammi og svo kom bara EIN einasta norn! Nammið kláraðist samt…skrýtið!

Vá, hvað ég er södd…

laugardagur, 27. október 2007

Raða sortera & hreinsa

Ég er komin í sorteringsham! Þetta skipulags- og sorteringsæði er genetískt og hefur lagst á ákveðna aðila í fjölskyldunni (nefni engin nöfn...þeir sem kannast við sig í því sem á eftir kemur vita að þeir eru með sorteringsgenið!):

Í nótt færist klukkan aftur (eða fram... man þetta aldrei) um klukkutíma og á morgun er sem sagt opinberlega kominn vetur. Þá þarf auðvitað að hreinsa sumarið út úr húsinu og taka á móti vetri. Já, hér í Svíþjóð er sko munur á sumri og vetri...

Dagurinn var nýttur í það að koma öllum sumar- og vorfötum í sérstaka fatapoka (Dimpa frá IKEA), merkja kirfilega og setja upp á háaloft. Svo voru pokarnir sem á stóð "haust- og vetrarföt", "kuldaskór" og "húfur og vettlingar" teknir niður af háaloftinu og öllu komið fyrir á sínum stað. Tók líka skurk í barnaherberginu og hreinsaði út öll barnaföt sem orðin eru of lítil og setti í fína vel merkta Dimpa-poka (fyrir komandi kynslóðir).

Aaahhh hvað mér líður vel eftir svona sorteringsdag. Það besta er stóri svarti ruslapokinn með fötum sem á að fara í fatagám Myrorna á eftir. Er að spá í að taka geymsluna í gegn á morgun. Það er sko kominn tími á að sortera allar skrúfur og verkfæri!

þriðjudagur, 16. október 2007

BXL

Við mæðgurnar vorum að koma úr helgarferð í Brussel. Yndislegt að hitta gamla vini og bara njóta þess að vera í fríi á stað sem maður þekkir eins og buxnavasann sinn.

Það besta við Brussel er:
- Place Chatelain
- Lúxuslífið á fimmstjörnuhóteli Ágústu
- Maturinn
- Allt puntaða fólkið á Ave Louise á laugardögum
- Mmaturinn
- Alþjóðlega stórborgarstemmingin
- Húsin með sál
- Pain au Chocolat
- Mmmaturinn
- Bakaríin

Og það er orðið reyklaust á veitingastöðunum sem er algert kraftaverk. Fyrir fimm árum reyktu Belgar á skrifstofum og í strætisvögnum.

föstudagur, 5. október 2007

Kornfleksklipparar

Ég gefst upp! Ég verð greinilega bara að vera með sítt ólitað hár í tagli eins og allar konur í Svíþjóð. Nú skil ég alla vega af hverju það eru svo fáar konur hér með töff klippingu…það er nefnilega ekki hægt að fá töff klippingu í þessu landi. Believe me…ég hef reynt!

Í gær hélt ég að ég væri með pottþétta lausn á málunum (ódýrari lausn en að fljúga alltaf til Íslands í klippingu). Ég lét nefnilega taka gangster-myndir af mér eftir síðustu klippingu á Íslandi…já, sem sagt myndir að framan og á hlið – vill svo til að ég er meira að segja í röndóttri peysu, vantar bara fanganúmerið! Með myndirnar fyrir framan sig skyldi Múmínstelpunni á sænsku hárgreiðslustofunni minni ekki misheppnast.

Ég veit ekki hvar sænskt hárgreiðslufólk fær prófin sín…sennilega bara í kornflekspakka. Ég er bara ALLS EKKI eins og á gangstermyndunum. Uuuuhuuuu!!!

p.s. þrátt fyrir útkomuna er alltaf skemmtilegt að koma til Múmínstelpunnar og heyra um alla nýju kærastana hennar…hún er alltaf með a.m.k. þrjá í takinu (núna er það einn í Tyrklandi, einn í Stokkhólmi og einn í Helsinki)

þriðjudagur, 2. október 2007

Garðvinna með skeið og a hælaskom

Vissuð þið að það er hægt að grafa upp runna með skeið?!

Jú, jú…ég sá það með eigin augum. Um helgina eyddi miðaldra par frá Lidingö heilum degi í garðinum okkar við að grafa upp fjóra runna með skeið – og borguðu okkur svo fullt af pening fyrir. Konan hafði unnið á gróðrastöð í Póllandi í ungdæmi sínu og vissi hversu mikilvægt það er að fá hvern einasta rótaranga með – og til þess þarf verkfæri eins og skeið! Hún hafði þó eitthvað lítið lært um garðvinnufatnað á gróðrastöðinni því hún var á háum hælum í moldinni!

Blocket.se er besta leiðin til þess að losa sig við það sem maður vill ekki lengur eiga. Án fyrirhafnar – kaupandinn borgar og nær í ”draslið.” Reglan ”eitt inn – eitt út” gildir á þessu heimili og því hefur heilmargt verið selt á Blocket, bæði gömul húsgögn og tæki. Það er sko með ólíkindum hvað er hægt að selja!

Jæja, þarf að drífa mig að fara að selja gamla póstkassann okkar.

Ég þoli ekki drasl!

sunnudagur, 30. september 2007

Flugnastrið

Ég er komin í heilagt stríð…við flugur! Það eru litlar ógeðslegar haustflugur út um allt! Það er ekki hægt að opna sultukrukku, þá eru þessi litlu viðbjóðslegu kvikindi komin til að halda partý. Ojbara! Við fengum okkur vín með matnum og þá ákváðu kvikindin að skreyta glasið mitt með því að raða sér í fallegan hring á glasið. Við þessa sýn langaði mig ekki lengur í rauðvín.

Svo fékk ég brilljant hugmynd. Dró fram ryksuguna og er búin að vera á eftir fluguandskotunum í allt kvöld. Syninum fannst mjög spennandi að taka þátt í þessu ryksugustríði við flugurnar og hrópaði hástöfum: ”Áfram mamma! Burt með flugurnar!”

Ég vann þessa umferðina og hef hugsað mér að nota morgundaginn í það að ÚTRÝMA haustflugum.

Sådetså!

laugardagur, 29. september 2007

NIX

Síminn hringir. Er með eitt barn í baði og annað á brjósti. Svara nú samt símanum av eintómri forvitni.

”Hej, det är Gabriella!”. Hjálp, ég þekki enga Gabríellu! Hver er þetta? Er minnið alveg að yfirgefa mig? Nei, nei…þetta er Gabriella sölukona sem vill selja mér áskrift á sokkabuxum. Já, SOKKABUXUM! Mér finnst þetta brjálæðislega fyndið. Hvað kemur næst…áskrift á nærbuxum?! Ég reyni að flissa ekki of mikið og upplýsi konuna um það að við séum faktiskt á Nix-listanum og það þýði að hún megi ekki hringja í okkur til að selja hluti.

En viti menn…hún er ekki að selja neitt. Nei, ég fæ fyrstu sokkabuxurnar ÓKEYPIS (nema að ég þarf nottlega að borga sendingakostnaðinn). Nú kemur eiginmaðurinn heim og ég geri eins og ég geri með alla sölumenn í símanum – leyfi þeim að tala við lögfræðing NIX í eigin persónu. Hahaha! Gabríella var reyndar alveg einstaklega óheppin (miðað við aðra sölumenn sem eru teknir í gegn) því hún var búin að halda því fram að NIX-listinn væri algert klúður og þeir sem sæju um hann væru ekki með yfirlit yfir alla.

Það verður sko örugglega ekki hringt í mig aftur til að bjóða mér ókeypis sokkabuxur! En ég bíð spennt eftir nærbuxnaáskrift…

fimmtudagur, 27. september 2007

Kona i skohlifum með ruslapoka


Sjálfsmynd mín er eftirfarandi: Ég er ógeðslega skipulögð, geri lista og sortera og sé til þess að allt sé ”under control”. Allt pottþétt semsagt.

En nú er ég farin að efast um að ég sé virkilega eins og ég taldi mér trú um. Nokkur nýleg dæmi:

Fór með soninn í leikskólann um daginn. Spjallaði smá stund við leikskólakennarana, athugaði hvort það vantaði nokkuð aukaföt (eins og maður gerir þegar maður er með allt á hreinu…) og kyssti svo draumadrenginn bless. Við mæðgurnar tókum svo lestina í bæinn þar sem við ætluðum að spóka okkur með vinkonu minni. Ég var auðvitað búin að dressa mig upp og fannst ég mjög smart í kápu í stíl við barnavagninn! Þangað til ég uppgötvaði á Östermalm að ég var enn í skóhlífunum frá leikskólanum. Hvernig stendur á því að enginn segir neitt við mann? Fólkið í lestinni hefur greinilega haldið að ég væri trendsetter og er nú búið að kaupa sér svona smartar bláar plastskóhlífar. Eða hvað…

Fór líka í líkamsræktina um daginn með ruslapokann með mér! Ætlaði sko að henda honum á leiðinni út en þegar ég var komin hálfa leið í ræktina fannst mér dálítið skrýtin lykt í bílnum og …já, þið fattið!

Ég er ekki svona kona sem gengur um í bláum skóhlífum með ruslapokann í hendinni…bara svo þið vitið það. Ég er nefnilega yfirleitt með allt á hreinu…já, svona nema stundum.

þriðjudagur, 18. september 2007

Listin að segja nei


Sko: Ég er svo þreytt að það er ekki eðlilegt! Það er eins og einhver hafi hellt sírópi í heilann á mér.

Spurning nr 1: Hvernig tónlist ætli sé best að hlusta á þegar maður er svona ógeðslega þreyttur?
Spurning nr. 2: Hvenær ætli ég læri að segja nei?

Ég fór á netið áðan og pantaði mér danska bók sem heitir Listin að segja nei! Einu sinni, löngu áður en ég eignaðist sjálf börn, var ég beðin um að leika jólasvein á barnajólaballi. Þá fattaði ég...ahaaa...ég segi alltaf alltaf já við öllu og er því beðin um fáránlegustu hluti...eins og að leika jólasvein! Ég ákvað þar og þá að segja alltaf nei þegar ég var beðin um eitthvað. Í nokkur ár var ég mjög góður neiari en nú er já-genið aftur farið að blómstra. Það þarf að stöðva þetta já-gen. Ég nenni ekki að vera svona bissí!

Markmiðið er jú að lifa ljúfu letilífi, drekka kampavín uppí sófa og sörfa á facebook.

föstudagur, 14. september 2007

Fotafitun

Hvernig færir maður fitukeppina á maganum undir iljarnar? Ef einhver er með góð ráð til þess að fitna undir fótunum væru þau vel þegin. Ég fór til bæklunarsérfræðings um daginn (jiminn…það er eins og ég sé fatlað fól!) með tærnar á mér – já, restin á mér kom líka með en mér var aðallega illt í tánum. Díagnósan frá lækninum er að mig vantar fitu undir iljarnar og í þessu fituleysi geng ég sem sagt bara beint á beinagrindinni…

Ætli sé best að borða hnetur til að fitna undir iljunum? Eða kannski franskar? Hamborgara? Læknirinn var ekki með neinar sérstakar hugmyndir um fitunarkúr en sendi mig til annars sérfræðings sem útbjó innlegg í skóna. INNLEGG! Ég hélt að það væru bara innskeif börn með hor sem væru með innlegg í skónum!

Ég er búin að halda kveðjuathöfn með öllum flottu skónum mínum. Héðan af verð ég bara í ecco og Birkenstock-skóm. Nú veit ég hvernig Imeldu Marcos leið þegar allir skórnir hennar voru hernumdir.

þriðjudagur, 11. september 2007

Desperate Housewife

Eftir að ég flutti úr hringiðunni í miðborg stórborgar í barnvænt úthverfi í annari stórborg hefur líf mitt breyst heilmikið. Á götunni þar sem ég bjó áður voru þrjú kaffihús, tveir góðir veitingastaðir, snyrtistofa, slátrari, fiskbúð og bakarí. Hér í úthverfinu er ég 20 mínútur að labba í næsta bakarí og kaffihúsið sem er næst mér er ekki einu sinni með soya latte! Þegar ég fór í fyrsta skipti á lókal pizzastaðinn fór ég næstum því að skæla yfir því að hafa flust í Suburbia því pizzurnar voru jóðlandi í olíu og algerlega óætar.

En maður deyr nú ekki ráðalaus! Nú er ég komin með heimakaffihús KRUPS. Helli kaffibaununum bara í vélina, ýti á takka og bingó: SOYA LATTE. Svo erum við komin með bökunarvél sem sér okkur fyrir nýbökuðu ilmandi brauði á hverjum morgni. Síðast en ekki síst er ég svo með Facebook á netinu og þar eru allir vinir mínir.

Nú þarf ég aldrei aftur að fara út úr húsi!

Stafakvóti Icelandair

Við mæðgurnar erum að fara í heimsókn til Íslands í haust. Ætlum að dansa aðeins í rokinu, fara í klippingu (auglýsi hérmeð eftir góðu hárgreiðslufólki í Stokkhólmi…dálítið dýrt að fljúga alltaf til Íslands í klippingu), vera með ömmu og afa, og skapa eitthvað skemmtilegt með vinkonunum.

Litla prinsessan er fimm mánaða og flýgur því nánast ókeypis. En það hefur sitt prís að fljúga ókeypis. Þú færð nefnilega bara þá bókstafi sem þú borgar fyrir. Já, sko…það eru 32 bókstafir í nafninu mínu og 30 bókstafir í hennar nafni. Íslensk nöfn eru almennt frekar löng og maður hefði því haldið að tölvukerfi Flugleiða réði við öll þessi dóttir-nöfn. En nei! Við fáum samtals bara 43 bókstafi því hún er á mínum stafakvóta. Það er dálítið mál að stytta 62 stafi í 43. Nú fljúgum við til Íslands sem Litla og Stóra. Það var það eina sem komst fyrir í tölvukerfinu.

mánudagur, 10. september 2007

Farfuglar í utlegð

Eins og allar aðrar lóur kem ég bara heim til Íslands á sumrin. Það er of mikið rok fyrir mig á veturna. Ég fer bara í svona þeytivindutæki í tívólí ef ég fæ heimþrá. Þá fæ ég ekta íslenska upplifun – kinnarnar klessast til hliðanna og munnvatnið þeytist út úr mér alveg eins og á góðum íslenskum vetrardegi.

Sumarið 2007 var svo óvenjugott að ég var lengi lengi uppá skeri. Söng Öxar við ána á 17. júní, fylgdist með umferðarfréttunum um verslunarmannahelgina (”hvar eru allir bílarnir?”) og dansaði niður Laugaveginn í pridegöngunni (er reyndar hálfheyrnarlaus eftir hljóðkerfið hans Páls Óskars en hvað gerir maður ekki fyrir ástina). Já, ég var svo lengi á Íslandi að ég smitaðist meira að segja af nýtteldhúsbakteríunni sem herjar á þjóðina. Eftir að ég kom í fjórða nýuppgerða eldhúsið með innbyggðri klakavél og espressóvél fannst mér alveg lífsnauðsynlegt að fara að gera upp eldhúsið mitt hérna úti. Fá mér hvítt háglans á allt! Sem betur fer læknaðist ég af bakteríunni þegar heim (sem sagt út) var komið en ég er hrædd um að þessi bakteríusýking sé bara í dvala og vakni upp á ný þegar ég kem í næsta háglanseldhús.

Þegar ég sat ekki við eldhúsbari í heimahúsum og sötraði latte ferðaðist ég um landið með fjölskyldunni. Þið vitið hvernig það er þegar maður kemur á nýja staði. Við viljum fá okkur alvöru ítalska pizzu í Napólí, Wurst með Sauerkraut í Þýskalandi (ok, kannski ekki endilega súrkálkið…) og space cookies í Amsterdam.

Í sumar dvöldum við í viku á Flúðum. Þið vitið, Flúðasveppir og allt það. Við tókum með okkur alls konar sveppauppskriftir í bústaðinn því nú átti sko að borða nýja gómsæta flúðasveppi með camembert, í sósum og á grillið. Vandamálið er bara að það fást ekki sveppir á Flúðum! Maður þarf að keyra á Selfoss til að kaupa sveppi. Í kaupfélaginu á Flúðum er hægt að kaupa DÓSASVEPPI. Þvílikir sveppir þessir Flúðabændur að reyna ekki að selja túristunum ”local delicacies”. Hvað er vandamálið?

Nú, jæja. Við fórum svo á Hellu og þar er jú Holtakjúklingur sem slátrar og pakkar kjúklingum af bæjunum á Suðurlandi. Við ætluðum sko aldeilis að grilla kjúkling. Namm! En haldið þið að það hafi fengist kjúklingur í kaupfélaginu á Hellu? Neiiii, síðasta kjúklingapöntunin hafði ekki komið með sendibílnum frá Reykjavík. ”Frá Reykjavík?” Ég var eitt stórt spurningamerki. ”Er ekki bara hægt að skokka yfir götuna og ná í kjúklinginn?”. Neiiiii, það þarf fyrst að senda hann með bíl til Reykjavíkur, bera hann inn á kælilager þar, flytja hann svo yfir í annan bíl og keyra svo aftur með hann á Hellu í kaupfélagið. Ég skil ekki lógíkina í þessu.

Jæja, seinna sama sumar vorum við svo á Snæfellsnesi í glampandi sól og blíðu. Þegar við horfðum yfir fallega blátt hafið langaði okkur svo rosalega í nýjan ferskan fisk á grillið. Hvergi betra að kaupa fisk en í ekta íslensku sjávarplássi eins og Grundarfirði…héldum við. En þar skjátlaðist okkur heldur betur. Eftir mikla leit komumst við að því að þar er bara seldur frosinn fiskur á Grundarfirði. Og já, hann er sendur frá Grundarfirði til Reykjavíkur í frystingu og svo fluttur aftur með bíl í búðina á Grundarfirði - gaddfreðinn.

Það verður einhver að bjarga þessu fólki þarna á íslensku landsbyggðinni!