Eins og allar aðrar lóur kem ég bara heim til Íslands á sumrin. Það er of mikið rok fyrir mig á veturna. Ég fer bara í svona þeytivindutæki í tívólí ef ég fæ heimþrá. Þá fæ ég ekta íslenska upplifun – kinnarnar klessast til hliðanna og munnvatnið þeytist út úr mér alveg eins og á góðum íslenskum vetrardegi.
Sumarið 2007 var svo óvenjugott að ég var lengi lengi uppá skeri. Söng Öxar við ána á 17. júní, fylgdist með umferðarfréttunum um verslunarmannahelgina (”hvar eru allir bílarnir?”) og dansaði niður Laugaveginn í pridegöngunni (er reyndar hálfheyrnarlaus eftir hljóðkerfið hans Páls Óskars en hvað gerir maður ekki fyrir ástina). Já, ég var svo lengi á Íslandi að ég smitaðist meira að segja af nýtteldhúsbakteríunni sem herjar á þjóðina. Eftir að ég kom í fjórða nýuppgerða eldhúsið með innbyggðri klakavél og espressóvél fannst mér alveg lífsnauðsynlegt að fara að gera upp eldhúsið mitt hérna úti. Fá mér hvítt háglans á allt! Sem betur fer læknaðist ég af bakteríunni þegar heim (sem sagt út) var komið en ég er hrædd um að þessi bakteríusýking sé bara í dvala og vakni upp á ný þegar ég kem í næsta háglanseldhús.
Þegar ég sat ekki við eldhúsbari í heimahúsum og sötraði latte ferðaðist ég um landið með fjölskyldunni. Þið vitið hvernig það er þegar maður kemur á nýja staði. Við viljum fá okkur alvöru ítalska pizzu í Napólí, Wurst með Sauerkraut í Þýskalandi (ok, kannski ekki endilega súrkálkið…) og space cookies í Amsterdam.
Í sumar dvöldum við í viku á Flúðum. Þið vitið, Flúðasveppir og allt það. Við tókum með okkur alls konar sveppauppskriftir í bústaðinn því nú átti sko að borða nýja gómsæta flúðasveppi með camembert, í sósum og á grillið. Vandamálið er bara að það fást ekki sveppir á Flúðum! Maður þarf að keyra á Selfoss til að kaupa sveppi. Í kaupfélaginu á Flúðum er hægt að kaupa DÓSASVEPPI. Þvílikir sveppir þessir Flúðabændur að reyna ekki að selja túristunum ”local delicacies”. Hvað er vandamálið?
Nú, jæja. Við fórum svo á Hellu og þar er jú Holtakjúklingur sem slátrar og pakkar kjúklingum af bæjunum á Suðurlandi. Við ætluðum sko aldeilis að grilla kjúkling. Namm! En haldið þið að það hafi fengist kjúklingur í kaupfélaginu á Hellu? Neiiii, síðasta kjúklingapöntunin hafði ekki komið með sendibílnum frá Reykjavík. ”Frá Reykjavík?” Ég var eitt stórt spurningamerki. ”Er ekki bara hægt að skokka yfir götuna og ná í kjúklinginn?”. Neiiiii, það þarf fyrst að senda hann með bíl til Reykjavíkur, bera hann inn á kælilager þar, flytja hann svo yfir í annan bíl og keyra svo aftur með hann á Hellu í kaupfélagið. Ég skil ekki lógíkina í þessu.
Jæja, seinna sama sumar vorum við svo á Snæfellsnesi í glampandi sól og blíðu. Þegar við horfðum yfir fallega blátt hafið langaði okkur svo rosalega í nýjan ferskan fisk á grillið. Hvergi betra að kaupa fisk en í ekta íslensku sjávarplássi eins og Grundarfirði…héldum við. En þar skjátlaðist okkur heldur betur. Eftir mikla leit komumst við að því að þar er bara seldur frosinn fiskur á Grundarfirði. Og já, hann er sendur frá Grundarfirði til Reykjavíkur í frystingu og svo fluttur aftur með bíl í búðina á Grundarfirði - gaddfreðinn.
Það verður einhver að bjarga þessu fólki þarna á íslensku landsbyggðinni!
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
1 ummæli:
til hamingju með síðuna Lóa, hlakka til að fylgjast með.
Þetta er alveg rétt, en eru túristarnir ekki hvort eð er með fullan bíl að heiman, með þurrkuðm mat sem kostaði bara nögl, en ekki hönd og fót eins og matur hér á skerinu?
Skrifa ummæli