sunnudagur, 30. september 2007

Flugnastrið

Ég er komin í heilagt stríð…við flugur! Það eru litlar ógeðslegar haustflugur út um allt! Það er ekki hægt að opna sultukrukku, þá eru þessi litlu viðbjóðslegu kvikindi komin til að halda partý. Ojbara! Við fengum okkur vín með matnum og þá ákváðu kvikindin að skreyta glasið mitt með því að raða sér í fallegan hring á glasið. Við þessa sýn langaði mig ekki lengur í rauðvín.

Svo fékk ég brilljant hugmynd. Dró fram ryksuguna og er búin að vera á eftir fluguandskotunum í allt kvöld. Syninum fannst mjög spennandi að taka þátt í þessu ryksugustríði við flugurnar og hrópaði hástöfum: ”Áfram mamma! Burt með flugurnar!”

Ég vann þessa umferðina og hef hugsað mér að nota morgundaginn í það að ÚTRÝMA haustflugum.

Sådetså!

laugardagur, 29. september 2007

NIX

Síminn hringir. Er með eitt barn í baði og annað á brjósti. Svara nú samt símanum av eintómri forvitni.

”Hej, det är Gabriella!”. Hjálp, ég þekki enga Gabríellu! Hver er þetta? Er minnið alveg að yfirgefa mig? Nei, nei…þetta er Gabriella sölukona sem vill selja mér áskrift á sokkabuxum. Já, SOKKABUXUM! Mér finnst þetta brjálæðislega fyndið. Hvað kemur næst…áskrift á nærbuxum?! Ég reyni að flissa ekki of mikið og upplýsi konuna um það að við séum faktiskt á Nix-listanum og það þýði að hún megi ekki hringja í okkur til að selja hluti.

En viti menn…hún er ekki að selja neitt. Nei, ég fæ fyrstu sokkabuxurnar ÓKEYPIS (nema að ég þarf nottlega að borga sendingakostnaðinn). Nú kemur eiginmaðurinn heim og ég geri eins og ég geri með alla sölumenn í símanum – leyfi þeim að tala við lögfræðing NIX í eigin persónu. Hahaha! Gabríella var reyndar alveg einstaklega óheppin (miðað við aðra sölumenn sem eru teknir í gegn) því hún var búin að halda því fram að NIX-listinn væri algert klúður og þeir sem sæju um hann væru ekki með yfirlit yfir alla.

Það verður sko örugglega ekki hringt í mig aftur til að bjóða mér ókeypis sokkabuxur! En ég bíð spennt eftir nærbuxnaáskrift…

fimmtudagur, 27. september 2007

Kona i skohlifum með ruslapoka


Sjálfsmynd mín er eftirfarandi: Ég er ógeðslega skipulögð, geri lista og sortera og sé til þess að allt sé ”under control”. Allt pottþétt semsagt.

En nú er ég farin að efast um að ég sé virkilega eins og ég taldi mér trú um. Nokkur nýleg dæmi:

Fór með soninn í leikskólann um daginn. Spjallaði smá stund við leikskólakennarana, athugaði hvort það vantaði nokkuð aukaföt (eins og maður gerir þegar maður er með allt á hreinu…) og kyssti svo draumadrenginn bless. Við mæðgurnar tókum svo lestina í bæinn þar sem við ætluðum að spóka okkur með vinkonu minni. Ég var auðvitað búin að dressa mig upp og fannst ég mjög smart í kápu í stíl við barnavagninn! Þangað til ég uppgötvaði á Östermalm að ég var enn í skóhlífunum frá leikskólanum. Hvernig stendur á því að enginn segir neitt við mann? Fólkið í lestinni hefur greinilega haldið að ég væri trendsetter og er nú búið að kaupa sér svona smartar bláar plastskóhlífar. Eða hvað…

Fór líka í líkamsræktina um daginn með ruslapokann með mér! Ætlaði sko að henda honum á leiðinni út en þegar ég var komin hálfa leið í ræktina fannst mér dálítið skrýtin lykt í bílnum og …já, þið fattið!

Ég er ekki svona kona sem gengur um í bláum skóhlífum með ruslapokann í hendinni…bara svo þið vitið það. Ég er nefnilega yfirleitt með allt á hreinu…já, svona nema stundum.

þriðjudagur, 18. september 2007

Listin að segja nei


Sko: Ég er svo þreytt að það er ekki eðlilegt! Það er eins og einhver hafi hellt sírópi í heilann á mér.

Spurning nr 1: Hvernig tónlist ætli sé best að hlusta á þegar maður er svona ógeðslega þreyttur?
Spurning nr. 2: Hvenær ætli ég læri að segja nei?

Ég fór á netið áðan og pantaði mér danska bók sem heitir Listin að segja nei! Einu sinni, löngu áður en ég eignaðist sjálf börn, var ég beðin um að leika jólasvein á barnajólaballi. Þá fattaði ég...ahaaa...ég segi alltaf alltaf já við öllu og er því beðin um fáránlegustu hluti...eins og að leika jólasvein! Ég ákvað þar og þá að segja alltaf nei þegar ég var beðin um eitthvað. Í nokkur ár var ég mjög góður neiari en nú er já-genið aftur farið að blómstra. Það þarf að stöðva þetta já-gen. Ég nenni ekki að vera svona bissí!

Markmiðið er jú að lifa ljúfu letilífi, drekka kampavín uppí sófa og sörfa á facebook.

föstudagur, 14. september 2007

Fotafitun

Hvernig færir maður fitukeppina á maganum undir iljarnar? Ef einhver er með góð ráð til þess að fitna undir fótunum væru þau vel þegin. Ég fór til bæklunarsérfræðings um daginn (jiminn…það er eins og ég sé fatlað fól!) með tærnar á mér – já, restin á mér kom líka með en mér var aðallega illt í tánum. Díagnósan frá lækninum er að mig vantar fitu undir iljarnar og í þessu fituleysi geng ég sem sagt bara beint á beinagrindinni…

Ætli sé best að borða hnetur til að fitna undir iljunum? Eða kannski franskar? Hamborgara? Læknirinn var ekki með neinar sérstakar hugmyndir um fitunarkúr en sendi mig til annars sérfræðings sem útbjó innlegg í skóna. INNLEGG! Ég hélt að það væru bara innskeif börn með hor sem væru með innlegg í skónum!

Ég er búin að halda kveðjuathöfn með öllum flottu skónum mínum. Héðan af verð ég bara í ecco og Birkenstock-skóm. Nú veit ég hvernig Imeldu Marcos leið þegar allir skórnir hennar voru hernumdir.

þriðjudagur, 11. september 2007

Desperate Housewife

Eftir að ég flutti úr hringiðunni í miðborg stórborgar í barnvænt úthverfi í annari stórborg hefur líf mitt breyst heilmikið. Á götunni þar sem ég bjó áður voru þrjú kaffihús, tveir góðir veitingastaðir, snyrtistofa, slátrari, fiskbúð og bakarí. Hér í úthverfinu er ég 20 mínútur að labba í næsta bakarí og kaffihúsið sem er næst mér er ekki einu sinni með soya latte! Þegar ég fór í fyrsta skipti á lókal pizzastaðinn fór ég næstum því að skæla yfir því að hafa flust í Suburbia því pizzurnar voru jóðlandi í olíu og algerlega óætar.

En maður deyr nú ekki ráðalaus! Nú er ég komin með heimakaffihús KRUPS. Helli kaffibaununum bara í vélina, ýti á takka og bingó: SOYA LATTE. Svo erum við komin með bökunarvél sem sér okkur fyrir nýbökuðu ilmandi brauði á hverjum morgni. Síðast en ekki síst er ég svo með Facebook á netinu og þar eru allir vinir mínir.

Nú þarf ég aldrei aftur að fara út úr húsi!

Stafakvóti Icelandair

Við mæðgurnar erum að fara í heimsókn til Íslands í haust. Ætlum að dansa aðeins í rokinu, fara í klippingu (auglýsi hérmeð eftir góðu hárgreiðslufólki í Stokkhólmi…dálítið dýrt að fljúga alltaf til Íslands í klippingu), vera með ömmu og afa, og skapa eitthvað skemmtilegt með vinkonunum.

Litla prinsessan er fimm mánaða og flýgur því nánast ókeypis. En það hefur sitt prís að fljúga ókeypis. Þú færð nefnilega bara þá bókstafi sem þú borgar fyrir. Já, sko…það eru 32 bókstafir í nafninu mínu og 30 bókstafir í hennar nafni. Íslensk nöfn eru almennt frekar löng og maður hefði því haldið að tölvukerfi Flugleiða réði við öll þessi dóttir-nöfn. En nei! Við fáum samtals bara 43 bókstafi því hún er á mínum stafakvóta. Það er dálítið mál að stytta 62 stafi í 43. Nú fljúgum við til Íslands sem Litla og Stóra. Það var það eina sem komst fyrir í tölvukerfinu.

mánudagur, 10. september 2007

Farfuglar í utlegð

Eins og allar aðrar lóur kem ég bara heim til Íslands á sumrin. Það er of mikið rok fyrir mig á veturna. Ég fer bara í svona þeytivindutæki í tívólí ef ég fæ heimþrá. Þá fæ ég ekta íslenska upplifun – kinnarnar klessast til hliðanna og munnvatnið þeytist út úr mér alveg eins og á góðum íslenskum vetrardegi.

Sumarið 2007 var svo óvenjugott að ég var lengi lengi uppá skeri. Söng Öxar við ána á 17. júní, fylgdist með umferðarfréttunum um verslunarmannahelgina (”hvar eru allir bílarnir?”) og dansaði niður Laugaveginn í pridegöngunni (er reyndar hálfheyrnarlaus eftir hljóðkerfið hans Páls Óskars en hvað gerir maður ekki fyrir ástina). Já, ég var svo lengi á Íslandi að ég smitaðist meira að segja af nýtteldhúsbakteríunni sem herjar á þjóðina. Eftir að ég kom í fjórða nýuppgerða eldhúsið með innbyggðri klakavél og espressóvél fannst mér alveg lífsnauðsynlegt að fara að gera upp eldhúsið mitt hérna úti. Fá mér hvítt háglans á allt! Sem betur fer læknaðist ég af bakteríunni þegar heim (sem sagt út) var komið en ég er hrædd um að þessi bakteríusýking sé bara í dvala og vakni upp á ný þegar ég kem í næsta háglanseldhús.

Þegar ég sat ekki við eldhúsbari í heimahúsum og sötraði latte ferðaðist ég um landið með fjölskyldunni. Þið vitið hvernig það er þegar maður kemur á nýja staði. Við viljum fá okkur alvöru ítalska pizzu í Napólí, Wurst með Sauerkraut í Þýskalandi (ok, kannski ekki endilega súrkálkið…) og space cookies í Amsterdam.

Í sumar dvöldum við í viku á Flúðum. Þið vitið, Flúðasveppir og allt það. Við tókum með okkur alls konar sveppauppskriftir í bústaðinn því nú átti sko að borða nýja gómsæta flúðasveppi með camembert, í sósum og á grillið. Vandamálið er bara að það fást ekki sveppir á Flúðum! Maður þarf að keyra á Selfoss til að kaupa sveppi. Í kaupfélaginu á Flúðum er hægt að kaupa DÓSASVEPPI. Þvílikir sveppir þessir Flúðabændur að reyna ekki að selja túristunum ”local delicacies”. Hvað er vandamálið?

Nú, jæja. Við fórum svo á Hellu og þar er jú Holtakjúklingur sem slátrar og pakkar kjúklingum af bæjunum á Suðurlandi. Við ætluðum sko aldeilis að grilla kjúkling. Namm! En haldið þið að það hafi fengist kjúklingur í kaupfélaginu á Hellu? Neiiii, síðasta kjúklingapöntunin hafði ekki komið með sendibílnum frá Reykjavík. ”Frá Reykjavík?” Ég var eitt stórt spurningamerki. ”Er ekki bara hægt að skokka yfir götuna og ná í kjúklinginn?”. Neiiiii, það þarf fyrst að senda hann með bíl til Reykjavíkur, bera hann inn á kælilager þar, flytja hann svo yfir í annan bíl og keyra svo aftur með hann á Hellu í kaupfélagið. Ég skil ekki lógíkina í þessu.

Jæja, seinna sama sumar vorum við svo á Snæfellsnesi í glampandi sól og blíðu. Þegar við horfðum yfir fallega blátt hafið langaði okkur svo rosalega í nýjan ferskan fisk á grillið. Hvergi betra að kaupa fisk en í ekta íslensku sjávarplássi eins og Grundarfirði…héldum við. En þar skjátlaðist okkur heldur betur. Eftir mikla leit komumst við að því að þar er bara seldur frosinn fiskur á Grundarfirði. Og já, hann er sendur frá Grundarfirði til Reykjavíkur í frystingu og svo fluttur aftur með bíl í búðina á Grundarfirði - gaddfreðinn.

Það verður einhver að bjarga þessu fólki þarna á íslensku landsbyggðinni!