mánudagur, 31. mars 2008

Lóan ER komin!

Ég las í Mogganum að tvær lóur hefðu sést í Kópavogi um daginn og á páskadag sáust fjórar lóur í grennd við Hornafjarðarflugvöll. Og svo er Lóan komin til Stokkhólms (hún fór nú reyndar heldur aldrei...). 

Og enn er ort um lóuna enda er hún eina von Íslendinga um að það komi nú einhvern tíma vor og sumar! Hér er glæný sonnetta um lóuna eftir Hallgrím Helgason:

„Lóan er komin“ ég les í morgunblaði.
Hún lenti í gær á þúfu í Kópavogi.
Á köldum degi kviknar veikur logi.
Kliður fer um landsins frægu staði.

Einn mólitur fugl með fagran söng í nefi
og fjarlægan skóg í dökku sumarstéli.
Bláklukkulyng hún boðar gráum meli
og betri tíð í einu litlu stefi.

Hvað segir hún okkur, manni eins og mér
á myrkum bar á höfuðborgarsvæði?
Á ljósmynd af henni við lítum, segjum skál.

En höfði mínu er fuglinn trúr sem fer
með fjaðrablik úr gömlu sumarkvæði.
Þá hljómar dýrðin djúpt í minni sál.


3 ummæli:

Linda sagði...

úúú - ég sá að fína sölusíðan er í vinnslu. Engin "powertools" þar lengur...
Gangi ykkur vel með framhaldið.
Kveðja úr þíðunni á Ósnum.

Linda sagði...

Ok - Lóan er löngu komin...
Sé reyndar að þú hefur verið upptekin við að setja inn á nýju síðuna.
Verður þú með 116 stærst? Mér finnst grænu kjólarnir alveg geggjaðir - þú mættir nú alveg koma með eins og einn í 116 þegar þið komið heim í maí - ef þú getur.
Hlakka mikið til að hitta ykkur.
Bestu kveðjur á síðasta vetrardeginum
Linda frænka

Linda sagði...

Hvert fór sænska lóan? Er farin að sakna pistlanna hennar...