laugardagur, 27. október 2007

Raða sortera & hreinsa

Ég er komin í sorteringsham! Þetta skipulags- og sorteringsæði er genetískt og hefur lagst á ákveðna aðila í fjölskyldunni (nefni engin nöfn...þeir sem kannast við sig í því sem á eftir kemur vita að þeir eru með sorteringsgenið!):

Í nótt færist klukkan aftur (eða fram... man þetta aldrei) um klukkutíma og á morgun er sem sagt opinberlega kominn vetur. Þá þarf auðvitað að hreinsa sumarið út úr húsinu og taka á móti vetri. Já, hér í Svíþjóð er sko munur á sumri og vetri...

Dagurinn var nýttur í það að koma öllum sumar- og vorfötum í sérstaka fatapoka (Dimpa frá IKEA), merkja kirfilega og setja upp á háaloft. Svo voru pokarnir sem á stóð "haust- og vetrarföt", "kuldaskór" og "húfur og vettlingar" teknir niður af háaloftinu og öllu komið fyrir á sínum stað. Tók líka skurk í barnaherberginu og hreinsaði út öll barnaföt sem orðin eru of lítil og setti í fína vel merkta Dimpa-poka (fyrir komandi kynslóðir).

Aaahhh hvað mér líður vel eftir svona sorteringsdag. Það besta er stóri svarti ruslapokinn með fötum sem á að fara í fatagám Myrorna á eftir. Er að spá í að taka geymsluna í gegn á morgun. Það er sko kominn tími á að sortera allar skrúfur og verkfæri!

þriðjudagur, 16. október 2007

BXL

Við mæðgurnar vorum að koma úr helgarferð í Brussel. Yndislegt að hitta gamla vini og bara njóta þess að vera í fríi á stað sem maður þekkir eins og buxnavasann sinn.

Það besta við Brussel er:
- Place Chatelain
- Lúxuslífið á fimmstjörnuhóteli Ágústu
- Maturinn
- Allt puntaða fólkið á Ave Louise á laugardögum
- Mmaturinn
- Alþjóðlega stórborgarstemmingin
- Húsin með sál
- Pain au Chocolat
- Mmmaturinn
- Bakaríin

Og það er orðið reyklaust á veitingastöðunum sem er algert kraftaverk. Fyrir fimm árum reyktu Belgar á skrifstofum og í strætisvögnum.

föstudagur, 5. október 2007

Kornfleksklipparar

Ég gefst upp! Ég verð greinilega bara að vera með sítt ólitað hár í tagli eins og allar konur í Svíþjóð. Nú skil ég alla vega af hverju það eru svo fáar konur hér með töff klippingu…það er nefnilega ekki hægt að fá töff klippingu í þessu landi. Believe me…ég hef reynt!

Í gær hélt ég að ég væri með pottþétta lausn á málunum (ódýrari lausn en að fljúga alltaf til Íslands í klippingu). Ég lét nefnilega taka gangster-myndir af mér eftir síðustu klippingu á Íslandi…já, sem sagt myndir að framan og á hlið – vill svo til að ég er meira að segja í röndóttri peysu, vantar bara fanganúmerið! Með myndirnar fyrir framan sig skyldi Múmínstelpunni á sænsku hárgreiðslustofunni minni ekki misheppnast.

Ég veit ekki hvar sænskt hárgreiðslufólk fær prófin sín…sennilega bara í kornflekspakka. Ég er bara ALLS EKKI eins og á gangstermyndunum. Uuuuhuuuu!!!

p.s. þrátt fyrir útkomuna er alltaf skemmtilegt að koma til Múmínstelpunnar og heyra um alla nýju kærastana hennar…hún er alltaf með a.m.k. þrjá í takinu (núna er það einn í Tyrklandi, einn í Stokkhólmi og einn í Helsinki)

þriðjudagur, 2. október 2007

Garðvinna með skeið og a hælaskom

Vissuð þið að það er hægt að grafa upp runna með skeið?!

Jú, jú…ég sá það með eigin augum. Um helgina eyddi miðaldra par frá Lidingö heilum degi í garðinum okkar við að grafa upp fjóra runna með skeið – og borguðu okkur svo fullt af pening fyrir. Konan hafði unnið á gróðrastöð í Póllandi í ungdæmi sínu og vissi hversu mikilvægt það er að fá hvern einasta rótaranga með – og til þess þarf verkfæri eins og skeið! Hún hafði þó eitthvað lítið lært um garðvinnufatnað á gróðrastöðinni því hún var á háum hælum í moldinni!

Blocket.se er besta leiðin til þess að losa sig við það sem maður vill ekki lengur eiga. Án fyrirhafnar – kaupandinn borgar og nær í ”draslið.” Reglan ”eitt inn – eitt út” gildir á þessu heimili og því hefur heilmargt verið selt á Blocket, bæði gömul húsgögn og tæki. Það er sko með ólíkindum hvað er hægt að selja!

Jæja, þarf að drífa mig að fara að selja gamla póstkassann okkar.

Ég þoli ekki drasl!